Flóknar deilur um dvalarleyfi

Barn á markaði á Filippseyjum.
Barn á markaði á Filippseyjum.

Hæstiréttur hefur vísað frá dómi máli 11 ára gamallar stúlku frá Filippseyjum, sem dvalið hefur hér á landi frá árinu 2006. Stúlkunni var vísað úr landi á síðasta ári og staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur þá ákvörðun en Útlendingastofnun veitti stúlkunni nú í ágúst tímabundið dvalarleyfi í eitt ár.

Upphaf málsins má rekja til þess, að kona, sem er fædd og uppalin á Filippseyjum og á þar fjölskyldu, fluttist hingað til lands fyrir mörgum árum, gekk í hjónaband árið 1995 og er nú íslenskur ríkisborgari.

Árið 2006 sótti konan um dvalarleyfi fyrir 7 ára gamla stúlku, sem hún sagði verið dóttur sína fædda á Filippseyjum 1999. Konan lagði fram ýmis gögn, þar á meðal fæðingarvottorð stúlkunnar og þar var faðir sagður óþekktur. Vottorðið var gefið út árið 2004.

Í ljós kom síðar, að litla stúlkan er bróðurdóttur konunnar og konan og íslenskur þáverandi eiginmaður hennar sögðust hafa ættleitt hana. Útlendingastofnun afturkallaði þá dvalarleyfi stúlkunnar þar sem sótt hefði verið um það á röngum forsendum. Héraðsdómur staðfesti þessa ákvörðun stofnunarinnar og benti m.a. á að sýnt hafi verið fram á, að stúlkan hefði verið ættleidd samkvæmt íslenskum lögum.

Konan áfrýjaði þessum dómi til Hæstaréttar fyrir hönd litlu stúlkunnar. Hæstiréttur segir, að konan hafi enga lögvarða hagsmuni í málinu og einnig sé ljóst, að fjölskyldunefnd sveitarfélagsins, þar sem litla stúlkan býr, hafi ekki áfrýjað málinu fyrir hennar hönd. Því vísar Hæstiréttur málinu frá dómi.

Barninu var komið fyrir á fósturheimili hér á landi í júní í fyrra og dvelst þar enn, að því er kemur fram í dómi Hæstaréttar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert