Fólk á aldrinum 25-40 ára skuldar mest

Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, heilsar Marínó Njálssyni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, á …
Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, heilsar Marínó Njálssyni hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, á fundinum í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn

Aldurshópurinn 25-40 ára er langskuldsettasti þjóðfélagshópurinn og að fjölmörg heimili eru með verulega yfirveðsettar fasteignir. 85-90% lána hjá lánastofnunum eru hins vegar í skilum. Þetta kom fram á fundi ráðherra og þingmanna með fulltrúum fjármálastofnana og lífeyrissjóða í gærkvöldi. 

Á heimasíðu forsætisráðuneytisins segir, að þótt umræður á fundinum hafi verið hreinskiptar og jafnvel hvassar, hafi góður samningsvilji verið til staðar. Hafi Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagt til að aðilar myndu hittast fljótlega aftur en áður myndi  sérfræðingahópur meta framkomnar hugmyndir og leiðir til lausnar. Haft er eftir Jóhönnu, að fundurinn hefði verið mikilvægt skref í átt að sameiginlegum lausnum og samfélagslegri sátt í þessu brýna máli.

Fram kemur, að forsvarsmenn lánastofnanna hafi gert grein fyrir stöðu mála í viðkomandi stofnunum og hvernig úrræði hefðu nýst skuldurum í vanda. Sá hópur, sem eigi í verulegum vanda, sé afmarkaður að mati fjármálastofnanna, en fari því miður stækkandi. Sértæk skuldaúrræði hefðu ekki nýst sem skyldi og margir skuldara teldu úrræðin flókin í framkvæmd. Töldu forsvarsmenn lánastofnana varhugavert að fara leið almennrar skuldaniðurfellingar. Fremur ætti að laga þau úrræði sem fyrir hendi eru.

Forsvarsmenn Hagsmunasamtaka heimilanna gerðu grein fyrir sínum hugmyndum um almenna skuldaniðurfellingu um allt að 15½% lækkun höfuðstóls.

Vefur forsætisráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert