Hreyfingin vill að mynduð verði neyðarstjórn

Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari. mbl.is

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa sent forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni,  beiðni um fund þar sem tillaga þingmannanna um myndun neyðarstjórnar verði rædd.
 
Tillagan er lögð fram, samkvæmt fréttatilkynningu frá þingmönnunum þremur,  vegna þess að þeim þyki einsýnt að hvorki innan ríkisstjórnarinnar né stjórnarflokkanna ríki einhugur né raunverulegur vilji  til almennra aðgerða í þágu heimilanna.

„Tíminn er á þrotum og samfélagið getur ekki verið í biðstöðu á meðan stjórnvöld og fulltrúar peningaaflanna koma sér saman um að hve litlu leyti þau komist upp með að bæta almenningi þær búsifjar sem þessir sömu aðilar áttu stóran þátt í að skapa eða hefðu getað fyrirbyggt.
 
Við lítum svo á að okkur beri skylda til að fylgjast áfram með gangi mála og reyna að tryggja hagsmuni almennings.  Við munum því taka þátt í starfi ráðherra og viðræðuaðila áfram þó við höfum miklar efasemdir um að raunverulegur vilji til að koma til móts við þarfir skuldsettra heimila liggi að baki þeim," segir í tilkynningu þingmanna Hreyfingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert