Jón Gnarr fagnar fordæmingu

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri. mbl.is/Golli

Jón Gnarr, formaður Besta flokksins, fagnar fordæmingu UngBest, ungliðahreyfingar Besta flokksins, á bókun Besta flokksins sem lögð var fyrir borgarráð í gær, en þar var lagt til að banna sölu áfengis á vínveitingastöðum borgarinnar.

„Mér finnst mjög gott að ungliðahreyfingar séu mjög harðar. Þær eiga að vera mjög harðar og gagnrýnar á flokkana sína. Þær eiga að reyna að álykta  hressilega og veita aðhald. Ég fagna því að UngBest skuli ekki láta neitt framhjá sér fara,“ segir Jón Gnarr í samtali við Mbl.is.

Í fordæmingu UngBest segir að það sé ekki vandi æskunnar að þeir sem sitji í borgarráði séu miðaldra. Fulltrúar flokksins gæti einungis hagsmuna síns aldurshóps en ungliðahreyfingin segir það ósanngjarnt þar sem aðeins 20% borgarbúa eru miðaldra.

„Ný bókun borgarfulltrúa sýnir vel í hvaða ógöngum menn lenda þegar aðferðir ríkisforsjár og skipulagshyggju verða ofan á,“ segir í fordæmingu frá ungliðahreyfingunni.

Glöggir lesendur sjá eflaust að fordæming UngBest er nánast samhljóða ályktun Heimdalls vegna frumvarps til nýrra búvörulaga.

Dagur Kári Gnarr Jónsson, formaður UngBest, segir þetta vera fyrstu ályktunina sem félagið sendir frá sér. „Þetta er fyrsta ályktunin sem við sendum út. Þetta heitir samt ekki ályktun heldur fordæming. Þetta er fordæming,“ segir Dagur sem kveður miðaldra fólk ekki vera dómbært um málefni veitingastaða.

 „Við teljum að miðaldra fólk vilji síður vera á veitingastöðum. Það vill bara vera heima hjá sér.“

Aðspurður segir Dagur Kári miðaldra fólk ekki einu sinni drekka áfengi heima hjá sér. „Nei, það bara drekkur kaffi eða te eða eitthvað.“

Ungliðhreyfingin segir 20% borgarbúa vera miðaldra. „Já samkvæmt rannsóknum UngBest, eða það er allavega álit UngBest,“ segir Dagur Kári og bendir á að í stefnuskrá UngBest segir að félagið eigi að leggja áherslu á að efla tómstundastarf ungs fólks.

 „Ungt fólk drekkur mikið sér til dægrarstyttingar. UngBest vill styðja við það ef það er meðvituð ákvörðun ungs fólks,“ segir Dagur sem kveður þó félagið ekki hafa samið stefnuskrá sína frá grunni.

„Þetta er tekið úr stefnuskrá Ungbest. Við erum með umfangsmeiri stefnuskrá en flokkurinn sjálfur. Ef stefnuskráin er lesin þá sést að hún er öll stolin úr stefnuskrám annarra ungliðahreyfinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka