Kjörsókn í vor ein sú dræmasta

Kjósendur koma á kjörstað á Akureyri í maí.
Kjósendur koma á kjörstað á Akureyri í maí. mbl.is/Skapti

Kosningaþátttakan í sveitarstjórnakosningunum í maí í voru var 73,5% og ein sú dræmasta í sveitarstjórnarkosningum til þessa. Kosningaþátttaka kvenna var meiri en karla eða 74% á móti 73% karlanna.

Þetta kemur fram í nýjum hagtíðindum, sem Hagstofan gefur út.  Við kosningarnar voru alls 225.855 manns á kjörskrá eða 71% landsmanna. Af þeim greiddu atkvæði 165.238 í 72 sveitarfélögum. Gild atkvæði voru 154.899. Auðir seðlar voru 9434 og aðrir ógildir 905 eða samanlagt 6,3% greiddra atkvæða. Segir Hagstofan, að það sé óvenjuhátt hlutfall miðað við úrslit fyrri sveitarstjórnarkosninga.

Alls voru frambjóðendur 2846 í þeim 58 sveitarfélögum þar sem var bundin hlutfallskosning, 1513 karlar eða 53,2% og 1333 konur eða 46,8%.

Alls voru kjörnir 512 sveitarstjórnarmenn á landinu öllu, 308 karlar eða 60,2% og 204 konur, 39,8% og hefur hlutfall kvenna af kjörnum fulltrúum aldrei verið hærra, en það var 35,9% árið 2006.

Alls voru kjörnir 418 fulltrúar með bundinni hlutfallskosningu, 247 karlar og 171 kona. Af þessum hópi voru 226 fulltrúar kjörnir af hálfu flokkslista en 192 af hálfu annarra lista. Fulltrúar kjörnir með óbundinni kosningu voru 94, 61 karl og 33 konur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert