Kreppan bítur í skólakerfinu

Minni þjónusta bitnar einkum á nemendum sem standa höllum fæti …
Minni þjónusta bitnar einkum á nemendum sem standa höllum fæti í námi og hafa minna fjárhagslegt svigrúm. mbl.is/Árni Sæberg

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að kreppan hafi veruleg áhrif í framhaldsskólum landsins. Samdráttur hefur orðið í launum kennara en á sama tíma hefur nemendum fjölgað og fjöldi kennara nánast staðið í stað. Námshópar hafa stækkað og kennarar hafa minni tíma til að sinna einstaklingsmiðaðri kennslu.

Út eru komnar niðurstöður rannsókna á líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara sem voru unnar af Guðrúnu Ragnarsdóttur lýðheilsufræðingi, framhaldsskólakennara og kennslustjóra í Borgarholtsskóla í samstarfi við Félag framhaldsskólakennara.

Fyrri rannsóknin var lögð fyrir vorið 2008 á miklum þenslutímum í íslensku samfélagi. Tilgangur seinni rannsóknarinnar sem fór fram vorið 2010 var að kanna áhrif efnahagskreppu frá hausti 2008 á líðan og starfsumhverfi framhaldsskólakennara og viðhorf þeirra til framhaldsskólalaga sem Alþingi samþykkti sumarið 2008.

Í báðum rannsóknum voru lagðir spurningalistar fyrir framhaldsskólakennara, þátttakendur í fyrri rannsókninni voru  901 og 892 í þeirri síðari.

Stór hluti kennara finnur fyrir streitu og álagi

Stór hluti kennara finnur fyrir streitu og álagi í starfi vegna aðgerða á vinnustöðum sínum sem tengjast kreppunni. Þjónusta skóla við nemendur hefur verið skorin niður sem birtist m.a. í minni stuðningi við nemendur, fábreyttara námsframboði og kennsluháttum, færri kennslustundum í áföngum og fjölmennari námshópum.

Minni þjónusta bitnar einkum á nemendum sem standa höllum fæti í námi og hafa minna fjárhagslegt svigrúm. Allt eru þetta áhættuþættir í brotthvarfi frá námi. Flestir kennarar segjast jafnframt finna fyrir auknu sálfélagslegu álagi hjá nemendum, segir í tilkynningu.

Niðurstöður rannsóknarinnar á viðhorfum kennara til nýrra framhaldsskólalaga eru m.a. þær að meirihluti þeirra er ánægður með það frelsi sem lögin veita skólum til að skipuleggja nám og námsbrautir. Þeir telja þó að bíða eigi með að innleiða þau vegna kreppunnar. Einnig finnst kennurum vanta skýrar áætlanir um framkvæmd laganna af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert