Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að stjórnvöld geti ekki þvingað fram niðurstöðu um orkuverð í samningum orkufyrirtækja við væntanlegan kaupanda, og á þar við uppbyggingu álvers í Helguvík.
„Ef að veikleikar eru í sjálfum orkuöflunarforsendunum þá er ekki eitthvað sem stjórnvöld hafa í sínum höndum,“ sagði hann í utandagskrárumræðu um atvinnumál á Suðurnesjum, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hóf umræðuna.
„Það þýðir ekki að vera í þessu gamla karpi eða þessum umkenningarleik. Ég held að það sé langmikilvægast fyrir okkur að við hættum því öllu saman. Og að stjórnvöld, ríkisvald og sveitarfélög og heimamenn fari að vinna saman og skoða hvað menn geta sameiginlega gert til þess að takast á við þetta erfiða ástand. Og það er algjörlega rétt að Suðurnesin eiga að vera okkar mesta áhyggjuefni í þessum efnum.“
Steingrímur tekur hins vegar fram að öll skilyrði séu orðin til þess á Suðurnesjum að fjárfestingar og umsvif fari þar vaxandi.
„En það lætur á sér standa og þá er án efa ein stærsta skýringin að allt of mikill skuldabaggi hvílir á atvinnulífinu. Og það hefur gengið of hægt að vinna úr skuldum fyrirtækjanna þannig að efnahagsreikningur þeirra komist í ásættanlegt lag, og þau treysti sér til þess að fara af stað á nýjan leik í fjárfestingar og framkvæmdir.“