Mikið magn ólöglegra lyfja var gert upptækt í samhæfðri aðgerð tolla- og lögregluyfirvalda um allan heim sem miðaði að því að uppræta sölu á fölsuðum og ólöglegum lyfjum á netinu sem kosta fjölda fólks örkumlun eða lífið. Fjölmargir voru handteknir en á Íslandi tóku tollayfirvöld þátt í aðgerðunum. Ekki er gefið upp hvort einhver efni hafi fundist hérlendis.
Tollgæslan á Íslandi tók þátt í aðgerðinni og voru póst og hraðsendingar undir sérstöku eftirliti á meðan á aðgerðinni stóð. Hundruð heimasíðna var lokað í aðgerðinni, mikið magn ólöglegra lyfja gert upptækt og fjöldi einstaklinga handteknir.
Af þeim 694 vefsvæðum sem buðu upp á ólögleg efni hefur 290 þegar verið lokað, samkvæmt frétt á vef Interpol.. Alls voru 268 þúsund pakkar rannsakaðir og hald lagt á 11 þúsund þeirra. Í þeim var að finna yfir ein milljón ólöglegra og falsaðra lyfja. Meðal annars sýklalyf, krabbameinslyf, þunglyndislyf, sterar og lyf við flogaveiki. Allt ólögleg lyf eða fölsuð lyf.
76 einstaklingar hafa verið yfirheyrðir og er hluti þeirra enn í haldi lögreglu grunaðir um sölu á lyfjunum. Eru eiturefnin metin á 2,6 milljónir Bandaríkjadala, 288 milljónir króna.
Hér er hægt að skoða alvarlegar afleiðingar notkunar slíkra lyfja á neðst í frétt á vef Interpol.