Styður frumvarpið en hefur ekki áhuga á álveri

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. mbl.is/Egger

„Ég hef ekki sérstakan áhuga á byggingu álvers í Helguvík. En sú framkvæmd er ekki á mínu borði. Hún er ein af forsendum núverandi fjárlagafrumvarp sem ég styð,“ sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á Alþingi.

„Ég tel að það gæti hvaða atvinnuuppbygging og hvaða innspýting inn í hagkerfið sem er önnur, gert sama gagn til þess að búa til þann grundvöll og þær forsendur,“ bætti Svandís við í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Svandísi um atvinnumál, m.a. hvort hún styðji fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem byggi á því að álver verði reist í Helguvík. 

Þá spurði hann ráðherra um það hvernig hann hyggist skapa atvinnu til þess að fjölskyldur og heimili geti greitt af lánum sínum. Einnig hvernig hún hyggist skapa atvinnu til þess að bæta stöðu ríkissjóðs.

Svandís segir að viðvarandi atvinnuleysi sé mikill harmleikur og tók þar með undir orð Péturs „En það er um leið þannig að hagstjórnarráðgjöf Sjálfstæðisflokksins er ekki sú sem við þurfum helst á að halda við slíkar kringumstæður. Það eru rétt tvö ár síðan við fórum fram af hengifluginu í íslensku efnahagslífi, vegna þeirrar efnahagsstefnu, vegna þeirrar efnahagsráðgjafar. Það er sú stefna sem kom okkur þangað sem við erum stödd núna,“ sagði Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert