Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að ríkið hafi byrjað mun seinna að hagræða heldur sveitarfélögin. Þetta kom fram við setningu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem hófst í morgun og stendur í tvo daga.
Í ræðu sinni fjallaði hann m.a. um frumvarp til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi og gerði þá kröfu að brugðist verði við endurteknum beiðnum sambandsins um að taka upp alvöru samstarf um laga- og reglugerðabreytingar sem hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin.
„Mig langar til að taka það skýrt fram hér að sveitarfélögin hófu strax sínar hagræðingaraðgerðir, ríkið byrjaði miklu seinna með sínar aðgerðir eða allt að ári síðar. Það er einfaldlega svifaseinna og ekkert óeðlilegt við það. Hins vegar er óeðlilegt að ríkið nýti sér yfirburði framkvæmda- og lagasetningarvalds síns til að ásælast tekjustofna sveitarfélaga," sagði Halldór meðal annars.
Verður hræðilegt fyrir ákveðin sveitarfélög
Halldór vísaði til setningarræðu sinnar á fjármálaráðstefnu á síðasta ári en þá kallaði hann eftir því að skilaboð forsætisráðherra og fjármálaráðherra til sveitarfélaga yrðu að vera skýr þannig að okkur væri ljóst hvar við stæðum gagnvart ríkinu og hvaða áhrif niðurskurður og skattahækkanir hjá þeim hafa áhrif á sveitarfélögin.
„Ef marka má fjárlög við fyrstu umræðu er óhætt að segja að skilaboðin eru skýr. Þetta var erfitt 2010 en verður erfiðara 2011. Eflaust á það ekki að koma okkur á óvart.
Hins vegar kemur mér á óvart hversu mikill niðurskurður er á ákveðnum stofnunum. Hann er svo mikill að ljóst er að fyrir margar stofnanir og heilu samfélögin verður árið 2011 miklu meira en erfitt.
Það verður hræðilegt fyrir ákveðin samfélög ef hugmyndir um allt að 40% niðurskurð ákveðinna heilbrigðisstofnana ná fram að ganga. Slík kerfisbreyting sem boðuð er í fjárlögum er í raun þess eðlis að hún þarf að gerast á miklu lengri tíma ef hún á að gerast á annað borð."