Almenn niðurfærsla skulda kæmi mjög illa við lífeyrissjóðina, bæði vegna lækkunar sjóðfélagalána og niðurfærslu á eignum sjóðanna hjá Íbúðaánasjóði. Þessar eignir eru metnar á 650 milljarða. Þetta myndi leiða af sér skerðingu réttinda hjá almennu lífeyrissjóðunum, að sögn Hrafns Magnússonar, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða.
Fulltrúar lífeyrissjóðanna áttu langan fund með Hagsmunasamtökum heimilanna í morgun. Skoðanir voru skiptar en viðræðurnar voru vinsamlegar og hreinskiptar, að sögn Hrafns. Lífeyrissjóðirnir eru andsnúnir hugmyndum Hagsmunasamtaka heimilanna um flatan niðurskurð.
„Það kom fram hjá þeim að þeirra hugmyndir væru ekkert meitlaðar í stein eins og þeir orðuðu það. Af þeirra hálfu væri ekki um neinar endanlegar tillögur að ræða,“ segir Hrafn.
Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna leggja til að í stað almennrar niðurfærslu skulda verði reynt að virkja betur þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, skerpa þau og gera þau skilvirkari. „Það er okkar mat að það væri skynsamlegra að gera þetta og jafnframt að það þyrfti fyrst og fremst að huga að fólki á aldrinum frá 25 til 40 ára, sem keyptu sér húsnæði á árunum fyrir hrun,“ segir Hrafn.