Bankakerfið á botninum

Fleiri treysta stjórnarandstöðinni heldur en ríkisstjórninni
Fleiri treysta stjórnarandstöðinni heldur en ríkisstjórninni mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeim fjölgar sem bera mikið traust til lífeyrissjóðanna en 14,7% segjast bera mikið traust til þeirra, samkvæmt nýrri könnun MMR. Í maí báru 9,8% traust til þeirra þannig að aukningin er 49%. Traust á Alþingi, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ríkisstjórnina minnkar verulega á milli kannanna en bankakerfið situr enn sem fyrr á botninum en 3,1% segjast bera mikið traust til þess.

Lífeyrissjóðirnir eiga þó langt í land með að ná sambærilegu trausti og var í desember 2008 (skömmu eftir hrun bankakerfisins) þegar 30,5% sögðust bera mikið traust til þeirra. Þeim fjölgar einnig sem segjast bera mikið traust til VR en 16,6% bera mikið traust til þess nú sem er 41% aukning frá maí 2010 þegar 11,8% sögðust bera traust til VR.

Stjórnarandstaðan nýtur meira trausts en ríkisstjórnin

Þeim fækkar um 43% sem segjast bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, úr 19,3% í maí 2010 í 10,9% nú.

Fjöldi þeirra sem segist bera mikið traust til bankakerfisins fer úr 4,6% í maí 2010 í 3,1% nú (sem er 32% minnkun). Þeim sem segjast bera mikið traust til AGS fækkar um 31%, fer úr 9,9% í 6,8%. Þá fækkar þeim sem segjast bera traust til Alþingis um 29%, nú mælist það 7,5% en var 10,5% í maí 2010.

Fjöldi þeirra sem sögðust bera lítið traust til þessara stofnana jókst jafnframt verulega, nema hvað varðar bankakerfið en77,8% kváðust bera lítið traust til þess í maí 2010 sem var viðlíka fjöldi og nú þegar 81,6% sögðust bera lítið traust til þess. Fjöldi þeirra sem sögðust bera lítið traust til ríkisstjórnarinnar, AGS og Alþingis jókst aftur á móti úr 56-59% í það að vera á bilinu 68- 75%.

Lögreglan nýtur mest trausts

Lögreglan nýtur áfram trausts um 80% aðspurðra. 67,7% segjast bera mikið traust til Háskóla Íslands og 48,9% segjast bera mikið traust til Háskólans í Reykjavík sem er nokkur minnkun frá í maí 2010 þegar 54,2% sögðust bera traust til hans.Fjöldi þeirra sem segist bera mikið traust til Ríkisútvarpsins mælist nú 52,1%.

Sem fyrr njóta þessar fjórar stofnanir mun meira trausts en aðrar stofnanir sem spurt var um í könnuninni.

Sjá könnunina í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert