Í 20 mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun

Þungir dómar eru nú felldir yfir fólki, sem hefur orðið …
Þungir dómar eru nú felldir yfir fólki, sem hefur orðið uppvíst að því að rækta kannabisplöntur.

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt tvo 26 ára gamla karlmenn í 20 mánaða fangelsi fyrir stórfellda kannabisræktun í Þykkvabæ. Tveir menn voru hins vegar sýknaðir af ákæru. Ekki var fallist á kröfu lögreglu um að gera upptækar tæpar 12 milljónir króna og 7265 evrur, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.

Þá dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur í dag 29 ára gamlan karlmann í  4 mánaða fangelsi fyrir að rækta 110 kannabisplöntur og hafa í vörslum sínum 66,33 grömm af maríjúana og 1,42 grömm af sveppum. 

Í gær dæmdi Héraðsdómur Reykjaness karlmann á fimmtugsaldri í 8 mánaða fangelsi fyrir að vera með rúm 2,6 kíló af kannabislaufum og 212 kannabisplöntur í fórum sínum. Þá var hann með rúm 2,5 kíló af maríjúana og 0,13 grömm af hassi. 

Í málinu í Þykkvabæ voru mennirnir dæmdir fyrir að hafa í ágúst 2008 sett upp mjög stóra ræktunaraðstöðu fyrir allt að 500 kannabisplöntur í útihúsi í Þykkvabæ. Lögregla fann verksmiðjuna síðan ári síðar. Þá voru þar 493 kannabisplöntur sem samtals vógu 68 kíló, 2,7 kíló af kannabislaufum og 10,98 grömm af hassi.

Mennirnir hafa báðir hlotið dóma áður fyrir ýmis brot, þar á meðal fíkniefnabrot. Í bankahólfi annars þeirra fundust 11,8 milljónir króna í seðlum og 7265 evrur. Lögregla krafðist þess að féð yrði gert upptækt þar sem það væri hagnaður af fíkniefnasölu. Dómurinn segir, að þótt skýringar mannsins á tilurð fjárins kunni að virðast ótrúverðugar og lúti meira og minna allar að skattundanskotum og fjárhættuspilum, þá breyti það ekki því, að engar sönnur hafi verið færðar á það að ávinningur hafi orðið af brotinu eða að fjárins hafi að öðru leyti verið aflað með fíkniefnasölu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert