Í lok september bjuggu 318.200 manns á Íslandi, 160.000 karlar og 158.200 konur. Engin fjölgun var frá fyrra ársfjórðungi. Erlendir ríkisborgarar voru 21.500 í lok 3. ársfjórðungs 2010. Á höfuðborgarsvæðinu einu bjuggu 201.900 manns.
Þetta kemur fram í nýjum tölum, sem Hagstofan birti í dag. Á þriðja ársfjórðungi 2010 fæddust 1300 börn, en 490 einstaklingar
létust. Á sama tíma fluttust frá landinu 510 einstaklingar umfram
aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 920
umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 410 fleiri en
þeir sem fluttust brott frá landinu. Jafnmargir karlar og konur fluttu frá
landinu.
Danmörk var helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra
ríkisborgara, en þangað fluttust 650 manns í ársfjórðungnum af 1900
alls. Næstflestir fóru til Noregs eða 540. Flestir erlendir
ríkisborgarar fluttust til Póllands eða 230 manns af 640.
Flestir
aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku (400), Noregi (180)
og Svíþjóð (140), samtals 710 manns af 980. Erlendir ríkisborgarar voru
hins vegar flestir frá Póllandi, 290 af alls 1100 erlendum
innflytjendum.