Fréttaskýring: Leita þarf varanlegra lausna

mbl.is

Hugmyndir um almenna niðurfærslu skulda hafa komið upp á yfirborðið með reglulegu millibili frá því að fjármálakerfi landsins hrundi síðla árs 2008. Rætt hefur verið um forsendubrest í því sambandi, og það lagt til að skuldir verði ýmist færðar niður um ákveðið hlutfall, eða skuldastaðan „færð aftur“ í það horf sem hún var í fyrir hrun. Engum dylst að skuldavandi margra er mikill, en ljóst er að slíkar aðgerðir fælu í sér mikinn kostnað. Hvort hann yrði borinn af ríkissjóði, bankastofnunum, lífeyrissjóðum eða Íbúðalánasjóði fer eftir útfærslu.

Lækka þarf ávöxtunarkröfu

„Að mínu viti þarf að fara fram ákveðin breyting á þeirri umgjörð sem er um lífeyrissjóðina, en þá er ég að vísa í viðmið þeirra um 3,5% ávöxtun og fjárfestingarstefnu þeirra, sem er kolröng,“ segir Ottó Biering Ottósson, hagfræðingur. Hann segir að taka þurfi hina víðtæku verðtryggingu til skoðunar, en með því móti hefðu stýrivextir Seðlabanka Íslands aukin áhrif. Yrði þetta gert myndi húsnæðiskostnaður heimilanna lækka.

Ottó segir almenna niðurfærslu ekki leysa vandann nema að litlu leyti. Sú leið myndi ennfremur ekki koma hagkerfinu út úr þeim vítahring sem það sé í. Finna þurfi lausn sem taki ekki einungis á lækkun greiðslubyrði til skamms tíma, heldur varanlegri lausn sem hagkerfið í heild þoli.

Lífeyrissjóðir miða skuldbindingar sínar við 3,5% raunávöxtunarkröfu á eignasafn sitt. Þessi regla setur gólf undir verðtryggt lánsfjármagn í landinu og þar með fjármögnunarkostnað stofnana á borð við Íbúðalánasjóð. Lánþegar fá sín lán á hærri vöxtum en sjóðurinn, þar sem vaxtamuninum er ætlað að fjármagna rekstur hans. Með því að lækka þetta viðmið lífeyrissjóðanna í 2,2%, segir Ottó, yrði unnt að færa vexti af núverandi verðtryggðum fasteignalánum niður í 3%. Hann áætlar að heildarupphæð innlendra íbúðalána sé um 1200 milljarðar, og þar af um 770 milljarðar í eigu Íbúðalánasjóðs. Ætla megi að vegnir meðalvextir þessara lána séu 4,8%.

Mikil kjarabót fyrir skuldara

Breytingar sem þessar hefðu í för með sér mikla kjarabót fyrir skuldara, einkum þá sem eru með nýjustu lánin, segir Ottó. Vaxtabyrði 40 ára verðtryggðs láns, sem tekið var í ársbyrjun 2005 á 4,8% vöxtum, myndi lækka um 37%, og greiðslubyrðin um 27%. Áfram yrði greitt af höfuðstól, samkvæmt upphaflegu greiðsluferli, en á hinum nýju vöxtum. Séu önnur úrræði einnig nýtt, svo sem aðlögun skulda að eignastöðu, yrði lækkun greiðslubyrðinnar enn meiri. Sé miðað við sama lán og áður, og veðsetningarhlutfallið 150%, sem síðan er lækkað í 110%, myndi lækkun vaxta í 3% fela í sér 47% lækkun greiðslubyrði, eða tæplega helmingslækkun.

Kostnaðurinn óverulegur

Ottó segir kostnaðinn af þessum aðgerðum líklega óverulegan, ekki síst í samanburði við kostnaðinn sem hugsanlega hlytist af almennri niðurfærslu. Hann yrði að hámarki 22 milljarðar á fyrsta ári, og bæri Íbúðalánasjóður 14 milljarða þess. Lægri fjármögnunarkostnaður komi til með að vega upp á móti tapi banka og lífeyrissjóða. Tapið kæmi til með að minnka eftir því sem lengur er greitt af lánunum.

Þessar aðgerðir ættu að hafa jákvæð áhrif á greiðslugetu fólks og kaupmátt, segir Ottó. Aukið svigrúm til neyslu hefði jákvæð áhrif á efnahagslífið í heild. Aukin umsvif myndu síðan skila ríkinu auknum skatttekjum, sem ynni gegn tapi Íbúðalánasjóðs. Jafnframt ætti lægri fjármögnunarkostnaður að auka fjárfestingu.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert