Með því að binda í lög eða stjórnarskrá reglu um að útgjöld ríkisins megi á hverju ári ekki aukast meira en sem nemur meðaltali hagvaxtar á mann undanfarin tíu ár væri hægt að létta mjög undir peningamálastjórn og jafna efnahagssveiflur.
Kemur þetta fram í þingsályktunartillögu, sem Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun leggja fram í byrjun næstu viku, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í drögunum að þingsályktunartillögunni segir að til að leysa þann hagstjórnar- og gjaldmiðlavanda sem Íslendingar búa við verði lagt til að tekin verði upp fjármálaregla sem styður við peningamálastefnuna á þann hátt að ekki þurfi að beita vaxtatækjum Seðlabankans á eins afdrifaríkan hátt og verið hefur.