Mikill fjöldi fólks er nú í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem Vinnumálastofnun og EURES, evrópsk vinnumiðlun, standa fyrir kynningu á starfsmöguleikum í útlöndum. Um 140 manns komu í Ráðhúsið á fyrstu 15 mínútunum eftir að kynningin hófst klukkan 17.
Að sögn Vinnumálastofnunar er fjöldi starfa í boði fyrir Íslendinga í útlöndum. Einkum er eftirspurn eftir iðnaðarmönnum, bílstjórum, landbúnaðarverkafólki, matreiðslumönnum, kennurum, heilbrigðisstarfsfólki, verkfræðingum, kerfisfræðingum og upplýsingatæknifólki.
Á kynningunni eru kynnt laus störf í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Belgíu, Hollandi, Eistlandi, Tékklandi, Þýskalandi og Bretlandi. Einnig eru veittar upplýsingar um starfs- og búsetuskilyrði víða í Evrópu og fólki gefst færi á að ræða beint og milliliðalaust við evrópska atvinnurekendur.
Kynningin stendur til klukkan 20 í kvöld og verður einnig á morgun frá klukkan 12 til 18.
Frekari upplýsingar um starfakynninguna eru á vefnum eures.is