Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fundaði í dag með Andrey Vasilyevich Tsyganov, sendiherra Rússlands, um árangurinn af heimsókn Ólafs Ragnars til Rússlands, dagana 21. - 24. september. Einnig var fjallað um væntanlega heimsókn orkumálaráðherra Rússlands og ríkisstjóra Kamtsjatka.
Ólafur Ragnar fundaði með þeim Dmitrí Medvedev Rússlandsforseta og Valdimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands. Þeir ræddu m.a. um samstarf á Norðurslóðum, jarðhitaverkefni í Rússlandi, nýjar siglingaleiðir og flugsamgöngur.
Í framhaldi af viðræðunum ákvað Pútín að orkumálaráðherra Rússlands og ríkisstjórinn myndu heimsækja Ísland, að því er segir á heimasíðu forsetaembættisins.
Þá ræddi Ólafur Ragnar við tvo blaðamenn frá Kyodo í Japan um reynslu Íslendinga í kjölfar bankahrunsins, þróun efnahagslífs og atvinnuvega, og mikilvægi auðlinda eins og hreinnar orku, sjávarafurða og vatns fyrir styrkleika íslensks hagkerfis á komandi áratugum.
Einnig var rætt um áhuga Japana á að skoða ástæður langlífis Íslendinga og var í því sambandi rætt um uppbyggingu heilbrigðiskerfis og forvarnir sem felast í hreyfingu, heilbrigðum lífsstíl og banni við reykingum.
Hann ræddi jafnframt við breska ríkisútvarpið, BBC, um eldgosið í Eyjafjallajökli og niðurstöðu alþjóðlegrar ráðstefnu sem haldin var á Íslandi í september þar sem fram komu tillögur um aðgerðir og breytingar á flugsamgöngum.
Einnig var fjallað um straum ferðamanna til Íslands og mögnuð áhrif eldfjalla og jökla í íslensku landslagi.