Formlegum fundi ríkisstjórnarinnar lauk nú fyrir skömmu en fimm ráðherrar sitja enn á fundi í Stjórnarráðshúsinu um skuldavanda heimilanna. Stjórnarandstaðan hefur þá verið boðuð á fund með ráðherrunum fimm klukkan tvö í dag. Að sögn aðstoðarmanns forsætisráðherra munu ráðherrarnir sitja á fundi sínum þar til fundur með stjórnarandstöðunni hefst.
Minni líkur en meiri eru nú á að almenn niðurfærsla skulda verði fyrir valinu sem lausn á skuldavanda heimilanna. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra í gærkvöldi. Hún sagði jafnframt að niðurfærslan gæti skapað meiri vanda en hún leysti.
Samráðshópur ríkisstjórnarinnar fundaði í gær með forystumönnum atvinnulífsins og sveitarfélaga en áður hefur komið fram mikil andstaða við hugmyndina af hálfu fjármálastofnana og lífeyrissjóða. Eftir fundinn lýstu þeir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sig andsnúna almennri niðurfærslu.
Jóhanna benti á að Íbúðalánasjóður stæði illa og aukið álag á hann þýddi aukin framlög úr ríkissjóði sem gæti skapað vanda. Hún ítrekaði að ef fara ætti í aðgerðir þyrftu allir að leggja sitt af mörkum. „Deila þarf þessum byrðum á milli lífeyrissjóða, bankanna og ríkissjóðs.“
Lífeyrissjóðirnir leggja til að úrræði sem þegar eru fyrir hendi verði virkjuð betur og gerð skilvirkari. Almenn niðurfærsla kæmi mjög illa við þá og hefði í för með sér skerðingu lífeyrisréttinda. Gylfi Arnbjörnsson segist ekki sjá hvernig hægt sé að útfæra slíka löggjöf. „Maður situr agndofa yfir því að ríkisstjórn, fimm ráðherrar og stjórnarandstaðan sitji á rökstólum um slíkt.“