Ríkisstjórnin virðist ráðalaus

Halldór Björnsson.
Halldór Björnsson. mbl.is

„Ríkisstjórnin –þó svo hún virðist kannski öll af vilja gerð – þá virðist hún vera ráðalaus. Það skortir á að menn vinni saman,“ segir Halldór G. Björnsson, sem var fyrsti formaður Starfsgreinasambandsins, í viðtali í nýútkomnu afmælisriti SGS vegna tíu ára afmælis sambandsins.

Halldór segir í viðtalinu að ekki sé nógu mikið samráð á milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar. „Ég held líka að það sé of langt á milli verkalýðshreyfingarinnar og almennings. Almenningur talar ekki vel um verkalýðshreyfinguna og telur hana máttlausa. Þannig heyrist mér tónninn vera.“

Halldór segir verkalýðshreyfinguna hafa leikið stærra hlutverk í þjóðfélaginu áður en hún geri í dag. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er eða af hverju, en ég held að ríkisstjórnin sé ekki að sækja mikið af ráðum til verkalýðshreyfingarinnar.“

Halldór segir óþolandi að horfa á fjölda fólks í biðröð að bíða eftir mat. Atvinnuleysið sé það versta sem fólk lendi í og veltir fyrir sér hvað verkalýðshreyfingin eigi að gera við þessar aðstæður. „Hvað getur hún gert? Þetta er komið út fyrir hennar verksvið. Það mun hins vegar reyna á hana þegar kemur að kjarasamningum. Þá kemur í ljós hvort hún er vandanum vaxin. Ef hún nær mönnum saman, þá er von. Ef ekki, þá er ekki mikil von um árangur. Staðan er erfið, það er ábyggilega mikil kúnst að sigla samningum í höfn í dag og líklega aldrei verið erfiðara. Fólkið í landinu hefur ekki nægilega peninga handa á milli til að komast af. Það er búið að rýra afkomu flestra hópa. Ég þekki það hjá mínum aldurshópi. Nú er fólk búið að vera að éta upp það sem það hefur nurlað saman, eins og séreignasparnaðinn. Hvað tekur við þegar þessir sjóðir eru upp urnir? Ég hef áhyggjur af því.“

Komum alltaf niður á fæturna

Halldór tekur ekki undir með þeim sem vilja sækja sérstaklega að greinum sem standa betur en aðrar í komandi kjaraviðræðum. „Það held ég að sé ekki skynsamlegt og það myndi sundra hreyfingunni. Auðvitað er sjávarútvegurinn mikilvægasta atvinnugreinin og hefur alltaf verið. Ef sjávarútvegurinn gefur góðar tekjur, þá nýtist það öllum. En núna vill enginn vinna í fiski, menn vilja bara sýsla með pappír. Það skilar hins vegar engu til lengri tíma og áverksmiðjur í hverjum firði eru ekki framtíðin. Auðvitað skiptir fjölbreytni mikilu, en sjávarútvegurinn er sú starfsgrein sem við eigum að leggja mesta áherslu á í okkar hagkerfi, en við eigum alltaf að líta á stöðuna á hverjum tíma út frá hagsmunum heildarinnar. Í dag er það þessi grein sem þarf stuðning fjöldans og stærðarinnar, á morgun einhver önnur.“

Aðspurður um framtíðina segir Halldór: „Við erum eins og kötturinn – komum alltaf niður á fæturna þó okkur sé kastað til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert