Fréttaskýring: „Við verðum að vita með hverjum þú stendur“

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis. mbl.is/Golli

Fyrrverandi starfsmaður Glitnis banka, sem er nú starfsmaður Íslandsbanka, hefur sent kvörtun til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur vegna starfshátta og framgöngu slitastjórnar Glitnis í sinn garð. Er þess krafist að slitastjórnarmönnum verði vikið frá og aðrir skipaðir í þeirra stað.

Mál starfsmannsins, sem er fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Glitni, er rakið í kvörtuninni sem Morgunblaðið hefur undir höndum. Þar kemur fram að maðurinn var fyrst boðaður til skýrslutöku hjá slitastjórn Glitnis í október á síðasta ári. Starfsmaðurinn segist hafa mætt á fundinn en látið bóka mótmæli um að honum væri ekki skylt að mæta.

Gert lítið úr störfum hans

Fundinum var stýrt af Richard Abbey frá rannsóknarfyrirtækinu Kroll en auk þess voru á fundinum Stephen West frá Kroll og Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar, auk túlks. Starfsmaðurinn taldi sig hafa gert meira en skyldan bauð þegar hann fór af fundi þar sem Richard hefði gert lítið úr störfum hans fyrir Glitni og reynt að gera hann tortryggilegan. Fékk starfsmaðurinn með sér afrit af upptöku á fundinum þegar hann fór.

Í júlí á þessu ári var starfsmaðurinn aftur boðaður á fund með sömu formerkjum og áður. Starfsmaðurinn mætti á fundinn 14. júlí eftir að hafa skilist á Steinunni stuttu fyrir fundinn að engin þörf væri á yfirlýsingu um að það sem hann segði yrði ekki notað gegn honum síðar. Engin þörf væri á slíku og ekki heldur á túlki þar sem um óformlegt spjall væri að ræða.

Starfsmaðurinn mætti með lögmanni sínum á fundinn sem var stjórnað af Michael C. Miller, lögmanni frá New York, en þar voru einnig Richard Abbey og Steinunn, formaður slitastjórnar.

Fundurinn var ekki hljóðritaður líkt og sá fyrri og segir í kvörtuninni að áður en fundurinn hófst hafi Michael látið falla setningar eins og: „Við verðum að vita með hverjum þú stendur“ og: „Nú byrjum við með hreint borð.“ Tók starfsmaðurinn því þannig að fyrri skýrslutaka yrði lögð til hliðar.

Í kvörtuninni segir að fljótlega hafi orðið ljóst að hér hafi ekki verið um upplýsingafund að ræða heldur yfirheyrslu sem snerist um að finna atriði sem gæfu höggstað á starfsmanninum.

Þegar hann gat ekki svarað spurningum um samskipti sín við Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformann Baugs, vegna eðlis þeirra, „hafi fljótlega farið að bera á pirringi hjá fulltrúum slitastjórnar Glitnis, trúlega vegna þess að svör umbjóðanda míns voru þeim ekki að skapi“.

Brást ókvæða við

Var starfsmaðurinn m.a. spurður hvort hann hefði talað við verjendur Íslendinganna sjö sem var stefnt í New York og hvort hann hefði rætt við hina stefndu. Starfsmaðurinn játti því að hafa rætt við Lárus Welding.

Brást Michael þá ókvæða við með orðunum: „Af hverju? Hvenær?“ Sagði starfsmaðurinn að þeir Lárus hefðu þekkst í rúm tíu ár. Hann hefði haft samband við sig tveim dögum fyrir fundinn en ekki vitað af honum.

Gert var hlé á fundi en þegar hann hófst aftur hafði starfsmaðurinn orð á því að andrúmsloftið væri mjög þrúgandi. Þegar hann viðraði þá skoðun sína svaraði Steinunn eitthvað á þá leið að þau væru ekki sálfræðingar.

Taldi sér beinlínis hótað

Starfsmaðurinn og lögmaður hans ákváðu loks að ganga af fundi þar sem spurningarnar héldu áfram með sama hætti, m.a. með „undirliggjandi aðdróttunum og hótunum“. Þegar svo var komið féllu orð sem starfsmaðurinn taldi fela í sér beinar hótanir.

Þá á Michael að hafa sagt: „Þú ert að fela eitthvað. Við þurfum að komast inn í hausinn á þér.“ [e. You are hiding something. We need to dig into you. - innsk blm.]. Í beinu framhaldi af því hafi Richard sagt að þeir væru með tvær stefnur í gangi og það væri alltaf hægt að bæta fólki inn í þær. Steinunn hafi svo bætt við eitthvað á þessa leið: „Það er ekkert markmið okkar í sjálfu sér að eyðileggja sem flestar fjölskyldur.“

Gæti dregið dilk á eftir sér ef svörin færu ekki „batnandi“

Fram kemur í bréfinu til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur að gert var hlé á fundi slitastjórnar og lögmaður fv. starfsmanns Glitnis og Steinunn fóru afsíðis. Þar lýsti Steinunn vonbrigðum með svör starfsmannsins. Var henni tjáð að það væri að hluta til sökum þess að ekki væri til staðar túlkur. „Það væri nú bara svo að þrátt fyrir að umbjóðandi minn væri ágætlega mælandi á enska tungu væri erfiðara að svara spurningum á ensku en íslensku sem væri hans móðurmál,“ segir í bréfinu en Steinunn hafi ekki talið þörf á túlki. Hafi hún jafnframt gefið skyn að það kynni að draga dilk á eftir sér fyrir starfsmanninn ef svör hans færu ekki „batnandi“ að þeirra mati.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert