Aflið á Akureyri, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, bauð í dag til sín ýmsum stjórum og stýrum í bænum, nældi í þau kynjagleraugun sem verið er að selja víða um land - og lét viðkomandi að sjálfsögðu borga þúsund kall fyrir. Guðrún Þórsdóttir talskona Aflsins segir að sala á Akureyri hafi almennt gengið vel.
Kynjagleraugun eru seld um allt land og rennur allur ágóðinn til baráttunnar gegn kynferðisofbeldi. Í Reykjavík rennur ágóðinn til Stígamóta, á Ísafirði til Sólstafa á Akureyri til Aflsins. Skotturnar, regnhlífasamtök ýmissa kvennasamtaka og félaga standa að söfnunni „og eiga þær þakkir skilið fyrir ótrúlega vel unnin störf,“ segir Guðrún Þórsdóttir.
Hrím hönnunarhús á Akureyri hannaði merkið sem selt er, gleraugu þar sem annað glerið er bleikt og hitt blátt. Einnig er seld bókin Á mannamáli eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur og stór hluti ágóða bókarinnar rennur til málefnisins.
Guðrún Þórsdóttir segir merkja- og bóksölu hafa farið mjög vel af stað um land allt en henni lýkur á Kvennafrídaginn, 25. október.
Bæjarstjórinn á Akureyri, Eiríkur Björn Björgvinsson, tilkynnti boðsgestum hjá Aflinu í dag að hann hafi sent öllum yfirmönnum hjá bænum þau skilaboð að bregðast vel við því, væri þess nokkur kostur, ef konur leggðu niður störf um tíma þann dag en íslenskar konur stefna að því að hætta störfum kl. 14.25 á Kvennafrídaginn.
Guðrún tilkynnti að Jafnréttisstýra, Kristín Ástgeirsdóttir, hefði keypt kynjagleraugu fyrir alla sjö starfsmenn Jafnréttisstofu og fagnaði því framtaki.