Nýr formaður UVG

Guðrún Axfjörð Elínardóttir er nýr formaður UVG.
Guðrún Axfjörð Elínardóttir er nýr formaður UVG.

Guðrún Axfjörð Elínardóttir hefur verið kjörin formaður Ungra vinstri grænna á landsfundi UVG sem lauk nú í kvöld. Ný stjórn var jafnframt kjörin fyrir næsta starfsár og fjölmargar ályktanir samþykktar, þ.á.m. að utanríkisráðherra fari norður og niður. En UVG fordæmir með öllu samninga um samstarf í varnarmálum sem Össur Skarphéðinsson gerði nýverið.  

„Samningarnir felast í því að Kanadaher fái að stunda æfingar á Íslandi og þjálfa þar hermenn sína til frekari drápa.

Ákvörðun utanríkisráðherra er sem pungspark í samstarfsflokk hans og brýtur gróflega í bága við samstarfsyfirlýsingu Samfylkingar og Vinstri grænna,“ segir í ályktunni, sem ber yfirskriftina „Össur norður og niður“.

UVG álykta jafnframt um hústökur og er ríkisstjórnin hvött til þess að endurskoða stefnu hins opinbera til hústöku og Alþingi hvatt til að mynda skýra lagalega umgjörð til að heimila hústökur. UVG telja að nýtingaréttur eigi að vera eignarrétti æðri og sjá ekkert að því að þá sem vanti  þak yfir höfuð sitt dvelji í yfirgefnum húsum, svo fremi sem þar séu ekki unnin eignaspjöll.

Ungliðahreyfingin fagnar auk þeim árangri sem hafi náðst í jafnréttismálum á Íslandi á undanförnum árum. Þá krefst hún að ríki og kirkja skuli aðskilin, leggst gegn stóriðjuframkvæmdum á borð við fyrirhugað álver í Helguvík og krefst þess að nýtt stjórnlagaþing skilgreini auðlindir Íslands til sjávar og sveita sem þjóðareign í stjórnarskrá Íslands.

Heimasíða UVG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert