Farþegaþota bandaríska flugfélagsins United Airlines lenti á Keflavíkurflugvelli nú á fimmta tímanum vegna reyks aftarlega í farþegarými. Vélin, sem er af gerðinni Boeing 777, var á leið sinni frá London til San Francisco þegar óvissustigi var lýst yfir vegna reyksins. Því var ákveðið að lenda á Keflavíkurflugvelli. 285 farþegar voru um borð en engan sakaði. Vélin lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli.
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir upptök reyksins enn ókunn en farþegar vélarinnar bíða nú í Leifsstöð á meðan flugvirkjar rannsaka málið.