Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að fyrri helmingur október sé með því allra hlýjasta sem sést hafi um mest allt land. Í dag reiknist meðalhiti það sem af sé mánuðinum vera 9,6 stig í Reykjavík. Það sé í líkingu við júní, þ.e. eins og sá mánuður hafi verið á árunum 1961-1990. Nú séu hins vegar veðrabrigði í nánd.
Kuldaskil séu komin inn yfir vestanvert landið. Úr vestri berist lægðarmiðja og í kjölsogi hennar berist kalt loft úr norðri.
„Það kólnar og frystir á landinu á mánudag. Sérstaklega kólnar um landið norðaustan- og austanvert. Þar kemur til með að snjóa, a.m.k. einhverja þessara daga, jafnvel á láglendi,“ skrifar Einar á veðurbloggsíðu sína.