Furðar sig á ummælum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl/Sigurður Bogi

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segist í samtali við mbl.is. furða sig á ummælum talsmanna Hagsmunasamtaka heimilanna um ASÍ, þó hann geti skilið að þeir séu ósáttir við að láta draga sig á asnaeyrunum eins og þeir segja. Honum sé hins vegar óskiljanlegt að samtökin ætli að gera ASÍ ábyrgt fyrir afstöðu stjórnvalda.

„Við höfum bent á það að sú leið að nota lífeyrissparnaðinn í þetta er ekki fær. Það felur ekki í sér afstöðu til leiðarinnar. Það felur í sér afstöðu til fjármögnunarinnar,“ segir Gylfi.

En hafið þið eitthvað fundað með Hagsmunasamtökum heimilanna um þessi mál? „Við funduðum með þeim í fyrra en höfum ekki átt fund með þeim nýlega.“

Aðspurður segist  Gylfi ekki hafa verið boðaður á fund með sérfræðingahópnum í dag. „Við höfum ekki verið þáttakendur í þessu með stjórnvöldum og áttum von á að kynntar yrðu fyrir okkur einhverjar tillögur á fimmtudag en það var ekki gert. Þetta var almennur fundur og það voru engar tillögur eða gögn lögð fram.“

Gylfi segir ljóst að Alþýðusambandið hafi mjög lengi verið með kröfur um að það yrði með raunhæfum hætti tekið á skuldum heimila sem eru í mestum vanda. „Það felur í sér gríðarlega lækkun á skuldum heimilanna og okkur sýnist að á afskriftareikningum bankanna séu um þrjúhundruð milljarðar sem þurfi að umbreyta í raunverulega niðurfærslu gagnvart heimilum. Ekki bara í bókhaldinu og ekki bara gagnvart skattauppgjöri. Heldur gagnvart heimilunum.“

Gylfi segir ljóst að mjög verulegur hluti þessara skulda sé tapaður enda séu bankarnir að  færa þær út úr sínum bókum þar sem þeir telji þetta tapað fé. Eina forsendan fyrir því að þeir megi færa þetta niður skattalega séð, sé vegna þess að þetta sé tapað fé.

Hann hefur skrifað pistil á vefsíðu ASÍ undir yfirskriftinni Hið sanna um afstöðu ASÍ til lausnar á greiðslu- og skuldavanda heimilanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert