„Málið skal sæta rannsókn“

Gildi lífeyrissjóður.
Gildi lífeyrissjóður.

„Mér þykir það miður að ég sé borinn röngum sökum,“ segir Jóhann Páll Símonarson varðandi fullyrðingar lífeyrissjóðsins Gildi, sem sagði í gær að það væri rangt að saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hafi ákveðið að mál sjóðsins skuli sæta rannsókn. Jóhann hefur undir höndum bréf sem sýnir annað.

Jóhann Páll, sem er sjómaður og sjóðsmaður í Gildi, sendi ríkissaksóknara erindi í síðasta mánuði  þar sem hann benti á að tap Gildis fyrir árin 2007 og 2008 væri langt umfram það sem eðlilegt gæti talist og í engu samræmi við almenna og lögmæta viðskiptahætti.

Hann spurðist fyrir um málið 12. október sl. Fram kemur í bréfi, sem mbl.is hefur undir höndum, að kæran hafi borist efnahagsbrotadeildinni 23. september.

„Þann 30. september tók saksóknari efnahagsbrotadeildar ákvörðun um að málið skyldi sæta rannsókn í efnahagsbrotadeild. Málinu hefur ekki verið úthlutað til rannsóknar og því miður er ekki enn fyrirséð hvenær af því verður. Málið hefur því stöðuna "Bíður rannsóknar" í dag,“ segir Sólberg S. Bjarnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í efnahagsbrotadeild, í svarbréfinu.

Þá hefur Jóhann Páll farið fram á það að Fjármálaeftirlitið leysi stjórn og stjórnendur lífeyrissjóðsins undan starfsskyldum sínum og víki þeim frá á meðan málið sætir rannsókn efnahagsbrotadeildar. Hann fer fram á það að FME taki stjórn sjóðsins yfir í samræmi við lagaheimildir eftirlitsins og skipi sjóðnum umsjónarmann og tryggi með því hagsmuni sjóðsfélaga.

Í tilkynningu sem Gildi sendi frá sér í gær segir hins vegar:

„Erindi hefur borist efnahagsbrotadeild frá einstaklingi varðandi Gildi lífeyrissjóð en engin ákvörðun verið tekin hjá embættinu um viðbrögð við því. Saksóknari efnahagsbrotadeildar staðfesti þetta í dag.“

Jóhann Páll segir í samtali við mbl.is að bréfið sem hann hafi í höndum sýni greinilega fram á annað.

„Ég er búinn að skrifa Ögmundi Jónassyni [dómsmálaráðherra] og þar óska ég eftir skýrum svörum,“ segir hann. Bréfið hafi verið sent ráðherra í dag og með því fylgi afrit af svarbréfi efnahagsbrotadeildarinnar.

Jóhann Páll óttast að efnahagsbrotadeildin hafi ekki mannskap til þess að rannsaka málið. „Er þarna verið að svæfa alvarlegt mál, ég spyr,“ segir Jóhann Páll.

Jóhann Páll Símonarson.
Jóhann Páll Símonarson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert