Strætó bs. og VÍS munu næstu sex vikurnar standa fyrir átakinu „Öryggisdagar“ sem miðar að því að fækka slysum í umferðinni og auka öryggi vegfarenda. Jákvæð skilaboð á strætisvögnum hvetja ökumenn og aðra til að huga að akstri sínum og hegðun í umferðinni, en að auki munu strætisvagnabílstjórar leggja sérstaka áherslu á að vera til fyrirmyndar og sýna gott fordæmi í umferðinni. Sérstaklega verður fylgst með umferðaróhöppum Strætó á tímabilinu með það að markmiði að fækka óhöppum.
Regluleg umfjöllun verður um átakið og árangurinn í umferðinni á Strætó.is og er almenningur hvattur til að taka þátt með því að senda skilaboð og ábendingar til Strætó.
Átakið er liður í forvarnarverkefni sem Strætó bs. og VÍS hafa unnið saman að frá ársbyrjun 2008 og hefur leitt til verulegrar fækkunar umferðaróhappa hjá Strætó bs.