700 milljónir á afskriftareikning

Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.
Höfuðstöðvar Byggðastofnunar á Sauðárkróki.

Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra, að gefa rækjuveiðar frjálsar, hefur leitt til þess að Byggðastofnun telur óhákvæmilegt að setja 700 milljónir króna á afskriftareikning vegna skulda 3 fyrirtækja af 8, sem starfa í rækjuveiðum og -vinnslu og hafa fengið lán hjá stofnuninni.

Þetta kom fram hjá Katrínu Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, á Alþingi í dag þegar hún svaraði fyrirspurn frá Einari K. Guðfinnssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks.  Katrín sagði, að hvorki iðnaðarráðuneyti né Byggðastofnun hefði vitað um þau áform sjávarútvegsráðherra að gefa rækjuveiðar frjálsar. 

Katrín sagði, að staða Byggðastofnunar væri mjög erfið og eiginfjárhlutfall stofnunarinnar hefði verið komið niður í 5,18% um mitt árið. Aðalástæðan væri að ófyrirséð framlög í afskriftarsjóði, sem námu þá 1,1 milljarði króna.

Sagði ráðherra, að Byggðastofnun hefði átt í langvarandi rekstrarvanda. Skoða þurfi lánastarfsemi stofnunarinnar frá grunni og meta þörfina fyrir hana. „Endurteknar fjárveitingar til stofnunarinnar vegna ófyrirséðra aðstæðna eru óviðunandi, bæði fyrir stofnunina og fyrir ríkið," sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert