Meira en helmingur svarenda í nýrri Gallup könnun Eflingar stéttarfélags og Flóafélaganna svonefndu hefur áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni og um fimmtungur hefur leitað sér fjárhagsaðstoðar. Einungis um helmingur félagsmanna Eflingar býr í eigin húsnæði.
Könnunin leiðir í ljós að af þeim sem hafa leitað sér aðstoðar vegna vanda í fjármálum sínum hefur um einn af hverjum tíu leitað eftir aðstoð til banka og fjármálastofana.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá Eflingu að könnunin nú sýni, líkt og fyrir ári, að enn dregur fólk úr útgjöldum vegna verri fjárhagsstöðu og hækkandi verðs, svo sem til ferðalaga og tómstunda.
„Það vekur og áhyggjur að fjórði hver hefur dregið úr útgjöldum til heilbrigðisþjónustu og er það heldur hærra hlutfall en fyrir ári. Það kemur ekki á óvart að óánægja félagsmanna eykst með launin og krafa um hærri laun er áberandi efst á blaði þátttakenda. Það er fátt sem er jákvætt í þessari könnun nema helst það að fólk er sátt við þjónustu stéttarfélaganna. Einnig vekur alltaf jafn mikla athygli að mikill meirihluti félagsmanna leggur enn og aftur áherslu á hækkun lægstu launa jafnvel þó það þýði minni almenna hækkun launa,“ segir í umfjöllun Eflingar.
Þegar spurt er um áherslur í komandi kjarasamningum leggja félagsmenn langmesta áherslu á launin. „Það vekur alltaf jafnmikla athygli í könnunum Eflingar og félaganna hve gríðarleg samstaða er um hækkun lægstu launa. Níu af hverjum tíu eru mjög sammála eða frekar sammála þessari stefnu og yfirgnæfandi meirihluti vill einnig umframhækkun lægstu launa þó að það þýði minni hækkun launa almennt. Þá kemur fram að ríflega helmingur þátttakenda er ósáttur við laun sín og hefur sá hópur farið stækkandi undanfarin misseri.“