Hreinsað út úr húsi

Tilkynnt var um þjófnað á öllum innréttingum og hreinlætistækjum úr húsi í Tjarnabyggð sem er á milli Eyrarbakka og Selfoss í vikunni.  Húsið hafði verið selt á uppboði fyrr í mánuðinum. Vitað er að allt það sem saknað er var í húsinu í byrjun september síðastliðnum, samkvæmt dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Engar vísbendingar eru um hver hafi fjarlægt innréttingarnar og er málið í rannsókn.  Lögregla biður þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010. 

Þriðja innbrotið á innan við ári

Tilkynnt var um innbrot í þrjá sumarbústaði í umdæmi lögreglunnar á Selfossi í síðustu viku.  Tveir þeirra eru í Heiðabyggðarlandi í Hrunamannahreppi og eru í eigu stéttarfélags. 

Þetta er í þriðja sinn sem brotist er þar inn á innan við ári.  Í tvö fyrri skiptin náðust þjófarnir með þýfið.  Í þetta sinn hafa þjófarnir ekki enn fundist.  Þeir höfðu á brott flatskjái, einn úr hvoru húsi. 

Þriðji bústaðurinn er við Apavatn og er einnig í eigu stéttarfélags.  Þaðan var stolið sjónvarpi og heimabíói.  Húsin voru öll í útleigu um þar síðustu helgi og innbrotin því átt sér stað í byrjun síðustu viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert