Hugmyndir ekki ræddar í stjórn OR

Kjartan Magnússon situr í stjórn OR
Kjartan Magnússon situr í stjórn OR

Tillögur starfsmanna Orkuveitunnar um hagræðingu með skertu starfshlutfalli í stað fjöldauppsagna hafa ekki verið kynntar fyrir eða ræddar af stjórn fyrirtækisins eins og skilja má af yfirlýsingu frá fyrirtækinu, samkvæmt tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

„Eðlilegt hefði verið að tillögur starfsmanna um þetta efni hefðu verið kynntar stjórninni um leið og þær komu fram enda eru til skrifleg gögn um þær. Ýmsar leiðir hafa verið ræddar í stjórninni og þar með talin sú leið að skerða starfshlutfall, hinsvegar hefur aldrei komið fram á stjórnarfundum að starfsmenn hafi lagt fram tillögu þess efnis. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur nú kallað sérstaklega eftir því að umræddar hugmyndir starfsmanna verði kynntar stjórninni.

Í yfirlýsingu yfirstjórnar OR er fullyrt að fordæmalaust sé að einstakir stjórnarmenn boði til funda með starfsmönnum. Það er rangt. Mörg dæmi eru um að einstakir stjórnarmenn boði starfsmenn eða trúnaðarmenn á sinn fund eða hitti þá að máli. Í sumar boðaði núverandi stjórnarformaður t.d. til fundar með starfsmönnum og tóku aðrir stjórnarmenn virkan þátt í fundinum.
 
Aukafundur stjórnar OR, sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins óskaði eftir, verður haldinn á miðvikudag. Óskað hefur verið eftir því að þar verði farið yfir hugmyndir starfsmanna um skert starfshlutfall í fyrirtækinu gegn því að ekki verði gripið til fjöldauppsagna en þær hugmyndir hafa enn ekki verið kynntar fyrir stjórninni. Að þessum upplýsingum fengnum, taki stjórn afstöðu til tillögu forstjóra um málið og/eða annarra tillagna, sem fram kunna að koma. Rétt er að benda á að allar ákvarðanir um fjöldauppsagnir í fyrirtækjum eru í eðli sínu mikils háttar, sem eðlilegt er að viðkomandi stjórn þekki til hlítar og taki afstöðu til og ábyrgð á, áður en þær koma til framkvæmda," segir í tilkynningu frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert