Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi menntamálaráðherra, sagðist telja óhjákvæmilegt að sameina einkareknu háskólana, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst, í þágu hagræðingar og gæða.
Þá sagði hún að hugmyndir hefðu verið ræddar um að sameina ríkisháskólana þannig að einn ríkisháskóli verði í landinu. Um er að ræða Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólann, Hólaskóla og Háskólann á Akureyri. Þorgerður Katrín sagðist ekki telja þetta raunhæft eins og sakir stæðu en þó mætti skoða að sameina háskólana sunnan heiða annars vegar, þ.e. HÍ og Landbúnaðarháskólann, og háskólana á Norðurlandi hins vegar.
Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag um háskóla. Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, sagði að sú stefna hefði verið sett fram að opinberir háskólar vinni saman í samstarfsneti. Sú stefna byggir m.a. á skýrslu, sem erlendir sérfræðingar gerðu en þar var hvatt til aukinnar samþjöppunar annars vegar einkarekinna háskóla og hins vegar opinberra háskóla.