Reyna sanddælingu í dag

Perlan að vinna inni í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í baksýn.
Perlan að vinna inni í Landeyjahöfn. Vestmannaeyjar í baksýn. Ljósmynd / hsig

Óttar Jónsson, skipstjóri á sanddæluskipinu Perlunni, vonast eftir að skipið geti hafið dýpkun í Landeyjarhöfn í dag, en ekkert hefur verið hægt að vinna við höfnina síðan á miðvikudag vegna öldugangs.

Óttar segir erfitt að vinna við dýpkun við Landeyjarhöfn á þessum árstíma. Skipið getur ekki athafnað sig þegar ölduhæð fer yfir einn metra. Á miðvikudaginn brotnaði dælurörið á Perlunni, en ástæða er sú að skipið var að reyna að dæla sandi í of miklum öldugangi. Búið er að gera við rörið, en skipið hefur beðið eftir betra veðri í Vestmannaeyjarhöfn síðustu daga.

Veður er að snúast í norðanátt, en þá lægir við suðurströndina. Óttar segist því vonast eftir að skipverjar geti farið að vinna við sanddælingu í dag. Óttar segir að sandrif framan við Landeyjarhöfn loki algerlega höfninni. Mikil vinna sé framundan við að opna rennu inn í höfnina.

Siglingastofnun auglýsti fyrir nokkrum dögum útboð vegna dælingar á sandi úr Landeyjarhöfn. Tilboð verða opnuð á fimmtudaginn. 

Herjólfur siglir til Þorlákshafnar meðan Landeyjarhöfn er lokuð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert