Hópur þingmanna undir forustu Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, sem gerir meðal annars ráð fyrir því, að formenn stjórna Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur verði ekki það sem kallað er „starfandi stjórnarformaður“.
Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögum um Landsvirkjum, um Orkuveitu Reykjavíkur, um samvinnufélög og sameignarfélög verði breytt til samræmis við lög um hlutafélög, sem sett voru fyrr á þessu ári en samkvæmt þeim er stjórnarformanni hlutafélags ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns.
Í frumvarpi þingmannanna er einnig gert ráð fyrir því að jöfn kynjahlutföll verði í stjórnum Orkuveitunnar og Landsvirkjunar, sem og í öðrum samvinnu- og sameignarfélögum.
Auk Árna standa þingmenn úr Samfylkingunni, Vinstri grænum og Framsóknarflokki að frumvarpinu.
Þegar nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við í Reykjavík í vor var Haraldur Flosi Tryggvason ráðinn starfandi stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur.