Stjórnarfrumvarp um breytingar á gjaldþrotalögum felur í sér mikla mannréttindabót fyrir gjaldþrota fólk. Þetta segir Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindamálaráðherra, á vefsvæði sínu í kvöld. Hann segir frumvarpið hafa verið eitt af sínum fyrstu verkum í ráðuneytinu.
Ögmundur bendir á að gjaldþrotalögin séu nú á þann veg að hægt er að rjúfa fyrningu krafna út í hið endanlega. „Þetta hefur valdið því að hýenur í lægsta lagi innheimtumanna - þeirra sem hafa viðurværi af því að kaupa skuldakröfur á hendur fjárvana fólki og fyrirtækjum og gera sér mat úr þeim, hafa haft nánast ótakmarkað athafnarými.“
Hann segir gjaldþrot ekki glæp heldur ógæfu sem fólk leiki sér ekki að. „Fátt er til verra en þegar gjaldþrota fólk er hundelt árum saman til þess að koma í veg fyrir að það fái reist sig við að nýju.“
Í frumvarpinu sem útbúið var í ráðuneyti Ögmundar er gert ráð fyrir að kröfur fyrnist á tveimur árum en hægt sé að rjúfa fyrningu fyrir dómi ef um skaðabótakröfur vegna ofbeldis eða annars ámóta er að ræða. „Slíkar undanþágur beri þó að túlka þröngt. Í þessu er fólgin mikil mannréttindabót fyrir gjaldþrota fólk.“