Borgarstjórn samþykkti í dag samhljóða tillögu sjálfstæðismanna um að hafin verði hönnun að göngu- og hjólastíg með fram strönd höfuðborgarsvæðisins. Stefnt er að því að stígurinn nái frá Kjalarnesi til Straumsvíkur í Hafnarfirði.
Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi mælti fyrir tillögunni og sagði hann að heildstæður stígur af þessu tagi myndi auka verulega umhverfisgæði íbúa svæðisins. Hann sagði að búið væri að vinna mikið í því að leggja göngu- og hjólastíga við ströndin á síðustu árum og áratugum í Reykjavík og í nágrannasveitarfélögum. Tillagan fæli í sér að tengja þessa stíga saman í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.
Í upphaflegri tillögu var gert ráð fyrir að stígurinn yrði tilbúinn fyrir árslok 2012, en niðurstaðan varð sú að binda sig ekki við þá tímasetningu.