Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar lýstu eftir umræðu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og jafnframt yfir miklum samhug með öllu starfsfólki Orkuveitunnar á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir. Auk þess var lýst yfir fullum stuðningi við meirihluta stjórnar og forstjóra OR.
Í bókun meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar segir að tekið sé undir bókun stjórnarmanna OR þeirra Haraldar Flosa Tryggvasonar stjórnarformanns, Aðalsteins Leifssonar, Björns Bjarka Þorsteinsson, Helgu Jónsdóttur, Jóhanns Ársælssonar og Sóleyjar Tómasdóttur þann 15.október sl. en þar færa þau stjórnendum fyrirtækisins þakkir fyrir þá alúð sem lögð hefur verið í undirbúning þeirra sársaukafullu aðgerða í starfsmannamálum sem virðast óumflýjanlegar.
Í bókuninni kemur einnig fram ánægja með hversu rík rækt hefur verið lögð við að fylgja áherslum stjórnar í þessu ferli sem byggðust því að málefnaleg og samfélagsleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram þá tillögu, að borgarstjórn beini því til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að leitað verði allra leiða til að koma í veg fyrir fjöldauppsagnir í fyrirtækinu.
„Í því skyni verði m.a. skoðað hvort unnt sé að ná fram þeim sparnaði, sem hægt væri að ná með fækkun starfsmanna fyrirtækisins, með því að ná samkomulagi við þá um skerðingu á starfshlutfalli. Markmið um fækkun starfsmanna næðust síðan á nokkrum árum, með ráðningabanni án þess að til fjöldauppsagna kæmi.“
Borgarfulltrúarnir bentu á að sú leið hafi verið farin hjá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum á undanförnum árum og hafi tvímælalaust skilað góðum árangri í baráttunni við fjöldaatvinnuleysi.
Tillögunni var hafnað.