Fjármálaeftirlitið hefur vísað til embættis sérstaks saksóknara máli á hendur fyrrverandi stjórnendum Landsbankans vegna meintrar allsherjar markaðsmisnotkunar. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Samkvæmt því sem fram kom í fréttinni leikur grunur á að stjórnendur bankans hafi beitt markaðinn blekkingum í allt að fimm ár. Viðurlög við markaðsmisnotkun varða allt að sex ára fangelsi.
Þá herma heimildir Stöðvar 2 að meðal þeirra mála sem tengjast rannsókninni á stjórnendum Landsbankans séu viðskipti félags í eigu Magnúsar Ármanns og Landsbankans um kaup á 4% hlut í bankanum rétt fyrir hrun.
Forstjóri Fjármálaeftirlitsins tjáði sig ekki um málið, en sagði að þar sem fjölgað hafi verið í rannsóknarteymi FME væri von á að fleiri stór mál yrðu send embætti sérstaks saksóknara á næstunni.