Stefán Pálsson, trúnaðarmaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir í tölvubréfi sem hann hefur sent til forstjóra Orkuveitunnar, Helga Þórs Ingasonar, að hann telji að koma Helga á fund trúnaðarmanna með Kjartani Magnússyni, stjórnarmanni í OR, í gær óheppilega og óviðeigandi.
Mikilvægt sé að trúnaðarmenn geti fundað með hverjum sem þeim sýnist án aðkomu stjórnenda fyrirtækisins.
Ekki sé rétt, líkt og haldið var fram í fréttatilkynningu frá OR síðdegis í gær að fundurinn sem Kjartan átti með trúnaðarmönnum sé án fordæma. Segir Stefán í bréfinu að hann hafi áður verið boðaður á fund stjórnarmanns í OR sem trúnaðarmaður. Það var eftir að trúnaðarmenn komu að samþykkt ályktunar þar sem ákvörðun um arðgreiðslur OR til eigenda sinna var gagnrýnd.
Þar hafi þáverandi stjórnarformaður OR hitt trúnaðarmenn á fundi og jafnframt lýst því yfir að eðlilegt væri að hitta trúnaðarmenn hvar og hvenær sem er til að ræða málin ef þess þyki ástæða.
Segir Stefán að það sé eðlilegt að stjórnarmenn vilji ræða við trúnaðarmenn og ekki eigi að skipta máli hvort þeir tilheyri meirihluta eða minnihluta stjórnar.