Samstaða um að fresta uppboðum

Samstaða er innan allsherjarnefndar Alþingis að leggja til að frumvarp sem frestar nauðungarsölum til 31. mars nk verði samþykkt. Þetta er í fjórða sinn sem þessi frestur er framlengdur með lögum, en frumvarp þessa efnis var fyrst lagt fram í ársbyrjun 2009.

Samkvæmt gildandi lögum rennur fresturinn út 31. október nk. Fresturinn tekur ekki sjálfkrafa gildi heldur verða þeir sem eru í uppboðsmeðferð að óska eftir honum við sýslumann. Frestinn má veita til allt að þriggja mánaða.

Ákvæði frumvarpsins er bundið við fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Ákvæðið gildir því um fleiri en þá sem eru í greiðsluaðlögun.

Í nefndaráliti allsherjarnefndar segir að framlengdur frestur sé enn og aftur hugsaður til þess að gefa skuldurum kost á að leysa úr sínum málum með samningum við kröfuhafa eða með því að leita til embættis umboðsmanns skuldara. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert