Félagar í Klúbbi matreiðslumeistara mættu í fullum skrúða og reiddu fram veitingar í boði Menntaskólans í Kópavogi - hótels og matvælasviðs við undirritun samstarfssamnings um starfsemi neyðarmötuneyta Rauða kross Íslands í dag. Fulltrúi þeirra verður í faghópi Rauða krossins og mun annast þróun uppskrifta fyrir mötuneytin og annast eftirlit með eldhúsum, birgjum og flutningsleiðum.
Neyðarmötuneyti eru meðal annars starfrækt tímabundið í fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins, þjónustumiðstöðvum almannavarna og í aðstöðu fyrir hjálparlið. Á vefsvæðinu freisting.is segir að samningurinn hafi verið gerður til að tryggja faglega umgjörð í framkvæmd og rekstri mötuneytanna. Að samningnum koma Rauði kross Íslands, Menntaskólinn í Kópavogi og Klúbbur matreiðslumeistara.
Samningurinn kveður á um gerð handbókar um rekstur neyðarmötuneyta, kortlagningu og flokkun eldhúsa í fyrirfram ákveðnum fjöldahjálparstöðvum og samstarf um faghóp sem getur verið deildum Rauða krossins til ráðgjafar um opnun og rekstur neyðarmötuneyta.
Rauði krossinn sér um þjálfun sjálfboðaliða og ber ábyrgð á rekstri neyðarmötuneytanna. Menntaskólinn í Kópavogi- hótel og matvælasvið á fulltrúa í faghópnum, veitir ráðgjöf um gerð handbókar og hefur eftirlit með öruggri meðferð matvæla.