Tillaga um að auglýsa stöðu felld

Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundi borgarstjórnar.
Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundi borgarstjórnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Borgarfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar felldu í dag tillögu minnihlutans í borgarstjórn um að auglýsa nýtt starf staðgengils borgarstjóra. Þess í stað var samþykkt að breyting á skipulagi borgarinnar sem hefur í för með sér að skrifstofustjóri borgarstjóra verður æðsti embættismaður borgarinnar að borgarstjóra undanskildum.

Borgarstjóri var áður beinn yfirmaður átta sviðsstjóra, tíu skrifstofustjóra, innri endurskoðanda auk aðstoðarmanns. Eftir breytinguna munu hins vegar allir æðstu embættismenn borgarinnar heyra undir skrifstofustjóra borgarstjóra að undanskildum skrifstofustjóra borgarstjórnar, borgarlögmanni og innri endurskoðanda borgarinnar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sögðu á fundi borgarstjórnar í dag að augljóst væri að auglýsa þurfi starfið, enda segi í tillögunni að viðkomandi embættismaður skuli verða „æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að undanskildum borgarstjóra“.

Í bókun borgarfulltrúa minnihlutans segir: „Á þeim stutta tíma sem þessi flokkar hafa verið við völd hefur hins vegar í þrígang verið ráðið í viðamiklar stjórnunarstöður án auglýsingar og alltaf með þeirri sömu skýringum að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða.  Það er einfaldlega ekki viðunandi við þær aðstæður sem ríkja í íslensku samfélagi, þar sem stór hópur hæfileikaríks fólks gengur um án atvinnu og krafan um gagnsæi og fagleg vinnubrögð og skýr og skiljanleg – skuli meirihlutinn í Reykjavík ganga fram með þessum hætti.“

Ekki kosin af borgarbúum

Sú er hlaut stöðuna, án auglýsingar, er Regína Ásvaldsdóttir. Hún hefur gegnt starfi skrifstofustjóra frá 1. febrúar 2008 en hlýtur nú titilinn skrifstofustjóri borgarstjóra.

Í bókun minnihlutans segir m.a. að aðgerðin feli í sér að mikið af ábyrgðarsviði borgarstjóra sé fært yfir á Regínu sem veki upp spurningar um hvort Jón Gnarr sé að víkja sér undan ákveðnum skyldum og ábyrgð í sínu starfi.  „Nú fer þetta vald til þegar ráðins skrifstofustjóra í ráðhúsinu, sem hvorki var kosin af borgarbúum né ber sérstaka ábyrgð gagnvart þeim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert