Tíðin hefur verið óvenju góð í haust og ekki á hverju ári sem sjá má vestfirska bændur slá tún sín í októbermánuði, en Björn Birkisson, bóndi í Botni í Súgandafirði, stóð í heyskap nú fyrir stuttu.
„Þetta
er vissulega óvanlegt enda sérstakar aðstæður. Venjulega vill maður forðast að
slá tún svona seint því það er meiri hætta að túnin verði fyrir skemmdum af
vélunum þegar liðið er á haustið. Hér var um að ræða tún sem var komið í óhirðu
svo við slógum það og hreinsuðum fyrir næsta sumar og slógum þannig tvær flugur
í einu höggi,“ segir Björn.
Hann segir að heyskapur hafi verið góður í
sumar „Fyrri sláttur var mjög rýr vegna þurrka en á móti kom að seinni sláttur
var óvenju góður. Reyndar hefðum við viljað ná meiru inn í hús, þetta stendur
frekar tæpt hjá okkur en ætti hafast,“ segir Björn og bætir við að þrátt fyrir
góða tíð hafi þeir ekki ráðist í þriðja sláttinn.
„Veðrið og sprettan í lok
september og byrjun október var reyndar svo góð og það hefði verið hægt að slá,
en það er nóg að gera hjá bændum á þessum tíma hvað varðar smölun og fleira
þannig það gafst hreinlega ekki tími til þess,“ segir Björn.