Vinna við undirbúning fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 er skemmra á veg komin en verið hefur á þessum tíma á undanförnum árum. Borgarstjóri hefur tvívegis óskað eftir fresti til að leggja frumvarpið fram.
Sveitarstjórnum er skylt að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir lok árs og nú er stefnt að síðari umræðu á aukafundi 14. desember, að þvíæ er segir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Jón Gnarr borgarstjóri var vant við látinn í gær en aðstoðarmaður hans, S. Björn Blöndal, nefnir sem skýringu á seinkun á vinnunni að fulltrúar Besta flokksins séu að koma að slíkri vinnu í fyrsta skipti.
Samkvæmt verk- og tímaáætlun sem gerð var í maí átti þessi vinna að fara fram í september og frumdrög fjárhagsáætlunar að liggja fyrir í byrjun október. Borgarstjóri hefur óskað eftir því að leggja frumvarpið fyrir borgarráð 18. nóvember og fyrir borgarstjórn 30. nóvember.