Stúlka, sem fæðist á Íslandi í dag, getur vænst þess að lifa í 83,3 ár og drengur, sem fæðist í dag getur reiknað með að lifa í 79,7 ár. Líkur benda til þess, að stúlkunni verði gefin nöfnin Anna María og að drengurinn fái nöfnin Alexander Þór.
Þetta má meðal annars lesa út úr upplýsingum, sem Hagstofan birtir í dag í tilefni af alþjóðadegi hagtalna en jafnframt kemur út ritið Landshagir þar sem fjallað er í tölum um allt sem nöfnum tjáir að nefna í íslensku þjóðfélagi.
Líklegt er, að mæður þeirra Alexanders Þórs og Önnu Maríu heiti Guðrún og séu 37 ára gamlar og feður þeirra heiti báðir Jón og séu 36 ára. Aðeins meiri líkur eru á því, að börnin alist upp í einbýlis- eða tvíbýlishúsi en í blokk.