Frávísunarkröfu mótmælt

Exeter málið var þingfest í lok september og þá kröfðust …
Exeter málið var þingfest í lok september og þá kröfðust verjendur sakborninganna að málinu yrði vísað frá. mbl.is/Árni Sæberg

Saksóknari mótmælti  frávísunarkröfu verjenda þriggja sakborninga í Exeter-málinu svokallaða við fyrirtöku í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Lögmaður Byrs lét jafnframt bóka að frávísunarkröfu verjenda sé mótmælt og þess krafist að þeim verði hrundið.

Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, gat ekki tjáð sig nánar um sín andsvör við frávísunarkröfunni við fjölmiðla að lokinni fyrirtöku.

Þeir Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs sparisjóðs, Ragnar Z. Guðjónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri og Styrmir Þór Bragason fyrrverandi forstjóri MP-banka eru ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við ríflega milljarða króna lánveitingu Byrs til félagsins Exeter holding.

Málið er fyrsta málið sem tilkomið er vegna rannsóknar sérstaks saksóknara. Saksóknari fékk þrjár vikur til að skila greinargerð til að hrekja frávísunarkröfu þremenninganna.

Verjendur sakborninga halda því fram að rannsókn málsins hafi aldrei átt að lenda á borði sérstaks saksóknara, því málið falli ekki undir lögin sem gildi um það embætti. Þar af leiðandi sé rannsóknin ógild.

Þá halda þeir því fram að stjórnvöld hafi hlutast til um rannsóknina með þeim hætti að ákæruvaldið hafi ekki haft ráðrúm til að sinna því sjálfstætt, eins og því beri að gera.

Málflutningur um frávísunarkröfuna hefst 3. nóvember nk. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert