Iðgjöld tryggingafélaga hækkuðu um nær 30% á árunum 2006 og 2007, á sama tíma og eigendur þeirra greiddu sér arð og tóku út úr félögunum eignir fyrir tugi milljarða króna. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 og vísað í skýrslu Neytendasamtakanna.
Neytendasamtökin létu að sögn Stöðvar 2 gera verkefnisskýrslu fyrir nokkru sem ber heitið Þrautir neytenda á sviði vátrygginga. Í henni kemur fram að iðgjöld vátrygginga hækkuðu verulega á árunum 2006 og 2007 eða um 27,6% á meðan almennar verðbreytingar á sama tíma voru 12,5%.
Á sömu árum tóku hluthafar um 42 milljarða króna út úr félögunum, þar af voru 18 miljarðar greiddir eigendum í arð.