Hreyfingin vill setja neyðarlög

Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari.
Þingmenn Hreyfingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þór Saari. mbl.is

Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu í dag fram þingsályktunartillögu sem felur í sér að efnahags- og skattanefnd sé falið að undirbúa frumvarp til neyðarlaga til bjargar heimilum í landinu. Í því skulu vera ákvæði um að höfuðstóll húsnæðislána heimila verði tafarlaust leiðréttur með því að færa vísitölu verðtryggingar fram fyrir hrun bankakerfisins, til 31. desember 2007.

Í greinargerð með tillögunni segir að allt of lengi hafi dregist að bregðast við þeim forsendubresti sem varð við hrunið. „Aðgerðir stjórnvalda hafa verið sértækar og miðast við að minnka það högg sem felst í gjaldþroti einstaklinga og bjarga þeim sem verst eru staddir. Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í eru allrar athygli verðar og eiga fyllilega rétt á sér. Þær taka þó ekki á þeim almenna vanda sem heimilin standa frammi fyrir að neinu gagni þótt frysting og lenging lána geri fleirum kleift að standa skil við hver mánaðamót.“

Einnig er gert ráð fyrir því í tillögu Hreyfingarinnar að stefnt verði að því að afnema verðtryggingu í þrepum og skuli miðað við að hún verði afnumin með öllu fyrir árslok 2011.

Þá verði óheimilt að láta bera nokkurn mann úr íbúð sinni nema að fenginni staðfestingu sveitarfélags á að viðkomanda sé tryggt viðunandi húsnæði og lágmarksframfærsla samkvæmt nýjum opinberum og samræmdum framfærsluviðmiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka