Reykjavíkurborg gæti verið útnefnd græn borg Evrópu á ráðstefnu sem haldin er í Stokkhólmi í þessari viku. Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, situr ráðstefnuna og mun flytja þar erindi fyrir hönd borgarinnar.
Að sögn S. Björns Blöndals, aðstoðarmanns borgarstjóra, mun Jón halda kynningu á ráðstefnunni „European Green Capital“ á morgun. Þá verða grænu borgir Evrópu fyrir árin 2012 og 2013 útnefndar og segir Björn að Reykjavík komi þar til greina.
Það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sem stendur fyrir verkefninu en titillinn græna borg Evrópu fer til borga sem státa af góðum árangri og hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum og sjálfbærri þróun og geta verið öðrum fordæmi í í umhverfismálum.